Fréttatilkynning

Ásmundur Ásmundsson

Laugardaginn 8. mars klukkan 16 opnar Ásmundur Ásmundsson myndlistarmaður sýningu á steypuverki sínu á Gallerí Hlemmi, nálægt strætisvagnastöðinni Hlemmi, Reykjavík. Listunnendum verður boðið uppá spennandi veitingar, maísflögur og salsa sósa að hætti Mexíkóa, ásamt hefbundnum veitingum listmenningarhúsa. Þó sjálfsagt verði gaman á opnuninni með sínum ræðuhöldum og húllumhæi, má mikilvægasti hluti listviðburðarins ekki gleymast, þ.e.listin sjálf. Hún verður til sýnis opnunardaginn sem og aðra daga meðan á sýningunni stendur, eða til 30. mars.

Verkið er unnið í steinsteypu og önnur efni sem notuð eru við nýbyggingar og/eða viðhald gamalla húsa. Steinsteypa hefur ekki mikið átt upp á pallborðið hjá listamönnum þjóðarinnar sem efniviður í listaverk, fyrir utan arkitekta og tækniteiknara, en hefur alltaf átt vísan stað í hjarta okkar Íslendinga sem manneskja.

Hluti verksins er myndbandsupptaka af uppsettningu sýningarinnar sem framkvæmd var af kvennverum sem kunna að meðhöndla stórkarlaleg efni, og er þáttur þeirra í sýningunni ómetanlegur.

Myndbandið er samvinnuverkefni Ásmundar, kvikmyndagerðarmannsins Bradley Grey og tónlistarmannsins Péturs Eyvindssonar a.k.a. DJ Musician.

Ásmundur Ásmundsson (f. 1971) stundaði nám við Myndlistarskólann á Akureyri, Myndlista og handíðaskóla Íslands og School of Visual Arts í New York þar sem hann útskrifaðist með meistaragráðu 1996. Ásmundur hefur haldið á annan tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga. Hann hefur verið liðtækur í félagsmálum og látið gott af sér leiða í gegnum hverskyns fjölmiðla og með skipulagningu sýninga. Ásmundur er stjórnarformaður Nýlistasafnsins. Pétur Eyvindsson er rafrænn tónlistarmaður sem hefur um árabil heillað þau lönd og þær þjóðir, þar sem hann er staddur hverju sinni, með dúndrandi raftónum ásamt hljómsveit sinni Vindva Mei. Hann hefur uppá síðkastið einnig komið fram einn síns liðs undir nafninu DJ Musician og hefur lag hans "Jolly Good Techno" verið spilað á undan fótboltaleikjum Þýska knattspyrnuliðsins Herthu Berlin á heimavelli þeirra Olympia Stadion.

Sýningin stendur til, eins og áður sagði, 30. Mars.

 

Sýningunni lýkur sunnudaginn 30. mars

Gallerí Hlemmur verður opinn fimmtudaga til sunnudaga frá 14:00 – 18:00


Vefsíðan er http://galleri.hlemmur.is