Fimmtudaginn 20. febrúar, 2003 - Myndlist

Hvað er áhugaverð samtímalist? - mynd 2 

MYNDLIST - Gallerí Hlemmur

Hvað er áhugaverð samtímalist?

EITTHVAÐ ANNAÐ, UMRÆÐUR OG HUGMYNDIR, ÓSK VILHJÁLMSDÓTTIR

Til 2. mars. Gallerí Hlemmur er opið miðvikudaga til sunnudaga frá kl. 14-18.

Hvað er myndlist?

Sem betur fer er ekkert svar til við þessari spurningu, svo mörg eru þau og ekkert þeirra það rétta. Í hugum margra okkar er myndlist skilgreind eftir þeim miðlum sem listamaðurinn vinnur í, myndlist er: málverk, höggmyndir o.s.frv. Allt fram á tuttugustu öld mátti ganga að myndlistinni vísri innan þessa ramma. Tuttugasta öldin kom svo fram með margar nýjar skilgreiningar á eðli, eiginleikum, hlutverki og markmiðum myndlistarinnar. Í dag virðast svo flestar þessar hugmyndir vera við lýði samtímis, fjölbreytnin er mikil og listamenn hafa frjálsar hendur sem aldrei fyrr.

Í Evrópu hafa spurningar um tengsl listar og samfélags, hlutverk og ábyrgð listamanna gagnvart samfélaginu reglulega komið upp hjá listamönnum, ekki eingöngu myndlistarmönnum, þessi spurning hefur líka verið áleitin innan annarra listgreina. Í myndlistinni voru það fútúristar, dadaistar og súrrealistar sem hvað fyrstir sprengdu af sér ramma viðtekinna hugmynda um listina, form hennar og hlutverk, en þessar hreyfingar náðu auðvitað líka til fleiri listgreina. Á sjöunda og áttunda áratug komu svo fram stefnur eins og Fluxus-stefnan sem vildi sameiningu lífs og listar, einn af forsvarsmönnum hennar var þýski listamaðurinn Joseph Beuys. Fluxus-stefnan náði nokkurri fótfestu hér á landi, til dæmis kom hún fram í verkum Magnúsar Pálssonar. Umræðan um hlutverk listamanna í samfélaginu var mjög ofarlega á baugi á sjöunda, áttunda og níunda áratug síðustu aldar, um tíma má segja að hún hafi gengið jafnvel of langt í svokallaðri pólitískri réttsýni, eða P.C. Minnihlutahópar áttu upp á pallborðið og hinn hvíti gagnkynhneigði karlmaður átti undir högg að sækja. Þetta tímabil er nú liðið en umræðan um listir og samfélagið hefur haldið sínu striki, alla vega meðal ákveðins hóps listamanna. Á síðustu Dokumenta-sýningu í Kassel, sýningu sem á að birta stefnur og strauma á fjögurra ára fresti, áttu umræður að vera í brennidepli. Einnig mátti sjá þar nokkuð af myndböndum sem höfðu kannski fyrst og fremst heimildagildi, m.a. um ástandið í samfélögum þriðja heims landa.

Nú hefur Ósk Vilhjálmsdóttir rofið þögnina sem hefur ríkt um nokkurt skeið varðandi málefni af þessum toga í íslenskri myndlist. Ósk er myndlistarkona sem á undanförnum áratug hefur unnið margs konar verk sem hafa samfélagið sérstaklega að viðfangsefni. Nú velur hún að nota myndlistina sem vettvang fyrir umræðu í Galleríi Hlemmi. Þar hefur hún komið fyrir borði, stólum, korktöflu og kaffi. Yfirskrift Óskar er Eitthvað annað og vísar til þess að vera má að eitthvert okkar óski eftir einhverju öðru en því sem meginstefna efnishyggjusamfélagsins býður upp á. Meðan á verkefninu stendur boðar hún reglulega til umræðufunda þar sem umræðuefnið er m.a. listin og samfélagið, hvað er gott líf, o.s.frv. Allir eru velkomnir að koma og láta í ljós skoðanir sínar í töluðu máli eða með myndum eða textum sem fá sinn stað á korktöflunni.

Þetta er afar þarft framtak hjá Ósk, því bæði er að umræða um þessi mál er tímabær meðal íslenskra myndlistarmanna og líka virðast fáir íslenskir listamenn hafa áhuga á að brjótast út úr því viðtekna formi sem við þekkjum öll: að búa til hluti og sýna þá í þar til gerðum listsýningarsölum. Þá á ég auðvitað ekki við að öll sú vinna sé fánýt eða minna áhugaverð, heldur það að Ósk er hér að vekja athygli á einum geira innan listarinnar sem virðist hafa verið dálítið vanræktur. Enn fremur hefur verið talað um svokallaða krúttkynslóð, kynslóð afar lofandi, ungra listamanna sem vissulega vinna á fjölbreyttan og sterkan hátt í verkum sínum en viðhorf þeirra til hlutverks listamannsins virðast nokkuð hefðbundin. Spurningin um ábyrgð listamannsins gagnvart samfélaginu er áleitin í þessu sambandi.

Ósk hefur hér stigið fyrsta skrefið í átt að því að opna fyrir umræðu, ekki aðeins meðal listamanna heldur allra í samfélaginu. Ég veit ekki hvort hinn almenni vegfarandi leggur leið sína í Gallerí Hlemm til að viðra skoðanir sínar, en honum stendur það alla vega til boða og vonandi að sem flestir noti tækifærið.

Ragna Sigurðardóttir