Maðkar á sýningu

MYNDLIST
Ljósmyndir

JÓHANNES ATLI HINRIKSSON

Gallerí Hlemmur.
Opið fimmtudaga til sunnudaga frá kl. 14-18 til 30. mars

  Í SEINNI tíð hefur færst í vöxt að listamenn beini sjónum sínum að því smæsta og hversdagslegasta í umhverfi sínu og bendi þar með fólki á að allt sé jafngilt og jafnmerkilegt, að ekkert sé svo lítilmótlegt að það eigi ekki skilið sínar 15 mínútur af frægð.
  Jóhannes Atli Hinriksson er einn þessara listamanna og hefur hann í sýningu sinni í Gallerí Hlemmi, sem jafnframt er hans fyrsta einkasýning, ekki látið sér nægja að líta niður fyrir sig og á jarðveginn sem við stöndum á heldur grafið niður og heimsótt kunnugleg kvikindi, ánamaðka, og myndað þá.  Á sýningunni er sería af slíkum myndum.  Myndirnar kallar

Jóhannes portrett en þær eru allar af framenda dýranna sem þekkist á flipa sem hvelfist yfir tannlausan munn þeirra, eins og lýst er í texta Hólmfríðar Sigurðardóttur, líffræðings og ánamaðkaaðdáanda, í sýningarskrá.
  Jóhannes hefði mátt gera meira á þessari sýningu.  Hún er heldur einsleit, allar myndirnar eru jafnstórar og áþekkar að gerð og uppsetning sýningarinnar hefði mátt vera frísklegri.
  Það góða við sýninguna er óvenjulegt efnisval listamannsins og sú staðreynd að með því að sýna ánamaðka í nýju ljósi tekst honum að breyta skilningi fólks á fyrirbærinu.
  Samkvæmt listamanninum sjálfum hefur hann myndað fleiri lítilmagna í dýraríkinu að undanförnu og verður spennandi að fylgjast með honum í framtíðinni.

Þóroddur Bjarnason

Morgunblaðið 31. mars 2002